Ferðin var í alla staði yndisleg. Góður matur, gott veður og síðast en ekki síst frábær félagsskapur. Hótelið var að mínu mati fínt þó ég svæfi á fangabedda;-) Ekki voru nú allir jafn sáttir enda standardinn mishár hjá fólki. En staðsetningin var svo góð að ég get ekki kvartað.
Daninn náði heldur betur að hægja á mér. A týpan varð að víkja og tölta í takt við fjöldann. Eini æsingurinn sem ég varð vör við var í löndum mínum í H&M. Fannst líka gott að geta klárað að kaupa jólagjafir án þess að fara inn í Moll! Mér líður nefnilega alltaf eins og kæstri skötu í Kringlunni fyrir jólin og ekki er hún stór.
Mikið eru Danir myndarlegt fólk, þeir voru ófáir snúningarnir sem ég tók. Skil ekki hvað Íslendingar eru að gorta sig. Íris gerði nokkrar tilraunir til að koma mér út við mikinn fögnuð nærstaddra. Mér var ekki skemmt:-)
Setti persónulegt met í hvítvíns og Baileysdrykkju ásamt möndluáti:-( Komst líka að því að ég kann ekki að dansa:-( Fórum á Salsa klúbb síðasta kvöldið og ég sver það við vorum stödd í Dirty dancing. Einhvern veginn tókst mér samt að snúa 2 metra háum manni í hringi. Lofaði herranum að snúa aftur að ári liðnu og vera þá búin að læra grunnsporin. En þetta var svo gaman!!!!
Ég held að Íslendingar séu ekkert sérlega vinsælir hjá Dönum í dag. Fyrsta kvöldið var fréttaskýringarþáttur í sjónvarpinu um innrás Íslendinga í Danmörku. Þátturinn var á neikvæðum nótum og spannaði allt frá Miss World til hugsanlegra kaupa á H&M. Baugsmálið, bankarnir, mikilmennskubrjálæði og jeppaeign var meðal efnis. Sem betur fer héldu allir að ég og Íris værum spænskar:-)
Eitt að lokum. Er heimkoma hápunktur utanlandsferðar? Fólkið mitt er alltaf svo fegið að komast heim. Ég veit ekki, kannski er ég svona skrítin því mig langar ALLTAF að vera lengur.
Jæja best að hætta þessu röfli.