skottuskrif

Saturday, August 27, 2005

Svar óskast.

Getur einhver sagt mér hvers vegna 14 ára stelpur eru fengnar til að auglýsa fatnað fyrir fullorðnar konur? Úr því að grásprengdu karlarnir í Dressmann auglýsingunum teljast nógu góðir til að selja herrafatnað, hvaða rök eru þá fyrir að láta holdlaus stúlkubörn klæðast kvenfatnaði? Ég man ekki eftir einni sjónvarpsauglýsingu þar sem konur yfir fertugt auglýsa föt. Í ljósi vesturlenskrar velmegunar og ofneyslu nútímans eru flestar konur í eða yfir kjörþyngd. Eiga auglýsingar ekki að höfða til sem flestra í tilteknum markhópi? Ég bara skil þetta ekki.

Friday, August 19, 2005

Maxgallamenning.

Á laugardaginn verður hin árlega menningarnótt haldin í miðbæ Reykjavíkur. Fyrir 10 árum þótti Skottunni voða hip að taka þátt í þessari gleði. Vinkonurnar snæddu saman á vel völdum veitingastað og röltu Laugaveginn sem iðaði af litríku mannlífi. Næstu árin einkenndi áfengisneysla fremur en menningarrýni þessa árlegu nótt hjá Skottunni. Nóttin snerist ekki lengur um ljóðalestur og gjörninga heldur partýstand hjá vinahópnum. Sjálf er Skottan enginn menningarviti en hefur gaman af fólki sem sker sig úr fjöldanum og gerir óvenjulega hluti. Í síðasta skiptið sem Skottan fór í bæinn á þessari nótt fékk hún menningarsjokk. Hátíðin hafði breyst í 17 júní með flugeldasýningu. Ef Skottunni langaði að hitta heilu fjölskyldurnar í Max, Kraft eða snjógöllum og hlusta á Jónsa í Svörtum fötum þá færi hún í Galtalæk. Kannski hefur óvenjulega fólkið týnst í fjöldanum, kannski er það hætt að skera sig úr. Þá eru allir orðnir ofur venjulegir. Kannski er aldurinn bara að færast yfir Skottuna sem ætlar að sleppa herlegheitunum um helgina og fara í sveitina.

Tuesday, August 16, 2005

NOTÓ

Sit hérna ein eftir í vinnunni, er til 19 þessa vikuna. Skrambi notó að horfa út og heyra rigninguna dynja á rúðunum. Ég fagna haustinu sem er mín uppáhálds árstíð. Fallegir litir í náttúrunni, rökkur og rómantík.
Ætlaði að skrifa mun meira en svo hringdi síminn endalaust. Þessum vinnudegi er hér með lokið.

Friday, August 05, 2005

25 dagar

Það eru 25 dagar eftir í vinnunni. Mikið lifandi skelfingar ósköp verð ég fegin að hætta í vaktavinnu, á engan veginn við mig. Lítur ekki út fyrir að ég fari neitt utan þetta sumar, ástæðan er einföld, mig vantar ferðafélaga. Hef íhugað að fara ein þó það hljómi frekar dapurlega. Sitja ein og snæða og fara ein að skoða söfn. Ekki svo að skilja að mér myndi leiðast, þvert á móti skemmti ég sjálfri mér ágætlega. Sé til. Skottan skoðaði tekjublaðið í dag. Gaman að forvitnast um laun gamalla kennara og fleiri. Er útgáfa blaðsins landlæg forvitni Íslendinga eða tíðkast slík birting víðar? Veit ekki en óar við ofurlaunum ónefndra aðila. Bilið á milli ríkra og fátækra breikkar og breikkar, það er synd. Skottan man nefnilega vel eftir þegar hún var í kvöldskólanum síðasta árið. Á daginn vann hún í versluninni Inni og nokkur kvöld í mánuði í Söluturninum Ríkinu á Snorrabraut. Fædd og uppalin í kringluhverfinu 108 varð skottan yfir sig bit þegar hún sá útganginn á sumu fólkinu sem verslaði í Ríkinu. Hún vissi einfaldlega ekki að slíkt ástand væri að finna á Íslandi. Viðskiptavinir INNI, sem flestir voru snobbaðir minimalistar, sáu lítið athugavert við 40 þúsund króna ruslatunnur. Á meðan tíndu óskabörn ógæfunnar síðustu krónurnar úr veskinu til að eiga fyrir vindli. AF þessum tveimur kúnnahópum fannst mér yfirborðskennd INNIpúkanna samt sorglegri.
Sá Pétur Blöndal í bítið í gærmorgun. Hann segir lítið mál að lifa af 100 þús á mánuði. Já já jarí jarí. Pétur virðist aðhyllast félagslegan darwinisma, survival of the fittest. Þeir sem ekki aðlagast eða komast áfram í lífinu mega deyja út. Það væri best fyrir íslenska stofninn. En í alvöru talað þá ætti að skora á Pétur að lifa orð sín í nokkra mánuði. Það væri fróðlegt að sjá hvernig honum farnaðist.