skottuskrif

Tuesday, January 24, 2006

Rabbabarispari

Ég hló, og hló og hló hló... af nýrri auglýsingu Spron í mogganum í dag;
"Það er gott að spara, spurðu Rabba bara" Heilsíðuauglýsing með mynd af Rafni (Rabba) sem er eiginmaður vinkonu minnar. Þar sem common sense is not so common er örugglega þörf á slíkum auglýsingum til að minna fólk á gildi þess að eiga varasjóð. Væri alveg til í að eiga eitthvað aflögu til að leggja í slíkan sjóð. Kannski ég borði bara rabbbabara til að spara þennan mánuðinn. múhhhhhaaaa.

Monday, January 23, 2006

-70

Ég vil biðja alla þá sem gala yfir veðrinu á Íslandi að loka goggunum. -70 stiga frost mældist í Síberíu og fólk er að frjósa í hel. Hvað erum við að kvarta?

Sunday, January 15, 2006

Its a sign

Einhver er að ritstýra skrifum mínum á þessari síðu! Hvar er pistillinn sem ég skrifaði hér í gær?? Eitthvað klikk í gangi, EÐA vísbending um að ég eigi að hætta eyða svona miklum tíma á netinu. Þar fyrir utan er sennilega best að röflið í mér svífi bara um í tómarúmi.
Anyways sælunni lýkur á morgun með upphafi nýrrar annar í skólanum. Kvíði fyrir að koma mér í lesgírinn. Ég mynda mér nefnilega einhverskonar skólabókaþol. Í upphafi fyllist ég óhóflegri þreitu og þarf helst að leggja mig eftir hverja blaðsíðu. En svo fara blaðsíðurnar að flettast hraðar með dögunum, vikunum og mánuðunum.
Þessi þolmyndun mín á vanalegast ekki við um annarskonar bækur en jólalesningin í ár var þó af skornum skammti. Held að ástæðan sé sú að ég gaf Arnaldi enn eitt tækifærið. Ólíkt flestum ef ekki öllum Íslendingum þá kann ég ekki að meta skrif hans. Finnst ég allt eins geta horft á Law and order special victim units. Reyndar eru það mínir uppáháldsþættir en mér finnst bækurnar hans Arnaldar ódýr útgáfa af samskonar sögum. Ég vil að bækur hleypi ímyndunaraflinu af stað og skilji eitthvað eftir sig. Bækurnar hans Arnaldar ná ekki að hreyfa við mér á slíkan máta. Kannski vegna þess að ég ímynda mér sögupersónur hans sem leikarana í fyrrnefndri þáttaröð. Veit ekki. Las líka Valkyrjur en finnst Þráinn betri í bakþönkum sínum á baksíðu Fréttablaðsins, vonbrigði.
Jæja er farin að gera eitthvað af viti.

Saturday, January 14, 2006

Vondu kallarnir

Mér finnst,
Mogginn MUN betra blað en Fréttablaðið.
Kastljósið betri þáttur en Ísland í dag
En mikið fer í taugarnar á mér hvernig þessir miðlar reyna snúa DV málinu upp í einhverskonar andúð gegn Baugi, Dagsbrún og ótilnefndum aðilum. Persónulega náði ég ekki alveg hvert spyrjandi Kastljósins var að fara í viðtalinu við Gunnar Smára í gær. Liggur ábyrgðin hjá hluthöfum og æðstu mönnum Dagsbrúnar??? Mér skilst að samkvæmt blaðamannareglum beri ritstjórn ábyrgðina. Hvað varð um kröfuna um frelsi fjölmiðla undan afskiptum eigenda sinna?
Ég var sammála Gunnari Smára. Umræðan um eignarhald fjölmiðla hefur snúist við. Skoðanir manna skipta sér oft eftir því hverjir eiga hlut að máli. "En það er nú ekki til umræðu hér" voru viðbrögð spyrjanda við óþægilegri ábendingu. Umræðan er sú að þú og þínir menn eru vondir kallar!(reyndar komu þessi orð ekki fram með beinum hætti en slíkur var tónninn). Mér finnst óþarfi að teygja anga DV málsins yfir á aðra miðla í eigu Dagsbrúnar eða manna tengdum þeim.
Tel þó ólílklegt að einhver kínamúr liggi á milli ritstjórnar og eigenda eða auglýsinga og fréttadeildar, en held það eigi við um alla miðla, því miður.
Að lokum þá fannst mér þetta innskot með leikaranum ömurlega ófyndið.

Wednesday, January 11, 2006

Stór orð

Maraþon umfjöllun kastljósins um fréttaflutning DV vekur upp ýmsar spurningar. Á slíkur "frétta"flutningur einhvern tímann rétt á sér? Hvernig hefði, ef einhver, orðræðan orðið í samfélaginu ef maðurinn hefði ekki framið sjálfsmorð? Hvers vegna framdi maðurinn sjálfsmorð? Sekur? Saklaus?
Hvernig brugðust nú aftur "fínni" fjölmiðlar við fréttaflutningi DV um hinn svokallaða svefnnauðgara? Ég man ekki betur en Kastljósið hafi talað við eitt af fórnarlömbum hans, upplýst almenning um nauðgunarlyfið, ogsfr. Var búið að dæma hann? Ég man það ekki.
Ég er ekki að leggja blessun mína yfir slíkan flutning, langt í frá. En eitt er víst DV DRAP EKKI MANNINN, hann féll fyrir eigin hendi. Í hita augnabliksins verða heldri menn samfélagsins líka að athuga orð sín.

Tuesday, January 10, 2006

Bölvun og Bor á rauðu

Ég bakkaði á bíl núna áðan. Var að koma af æfingu, hæstánægð með dugnaðinn(mætinguna:) og tilbúin að takast á við daginn. Arrrrgggg. Veit upp á mig skömmina en ætla ekki að fara út í þá sálma. Maðurinn var algjört gæðablóð og virtist kenna í brjóst um klaufann sem augljóslega kann ekki að keyra. Tjónaskýrsla, afsökun, afsökun, og aftur afsökun, blessaður og svo bölvað. Á ljósum á leiðinni heim, niðursokkin í vangaveltum um ömurlega asksturshæfileika mína, er mér litið inn í næsta bíl. Þar var strákur um tvítugt svo önnum kafinn við að bora í nefið á sér og borða nammið að ég hef aldrei séð annað eins. Hló mig máttlausa og gleymdi í andartak áðurnefndu óhappi. Svona smá ábending til þeirra sem hafa slíka slíka iðju að vana. Borið og borðið á ferð. Það er aldrei að vita nema ég sé í næsta bíl;-) Og ábending fyrir sjálfa mig, fylgstu betur með umferð og akstri og minna með ökumönnum.

Friday, January 06, 2006

Við erum allar Súpermódel.

Kíkið á viðtalið við Tarantino á hugi.is undir háhraða. Hvernig verða næstu áramót á Íslandi? Ég spái því að Hollywood mæti hingað með öllu tilheyrandi. En eru drykkjuvenjur íslenskra kvenna virkilega svona slæmar samanborið við drykkju kvenna í Bandaríkjunum? Spyr sú sem ekki veit.

Thursday, January 05, 2006

Heilsan

Komst að því í ræktinni í gær að ég er rosalega góð við sjálfa mig á æfingum. Get ekki enn lyft út af bakinu og verð að láta mér nægja að ganga á "hlaupa"bretti eða nota skíða og klifurtækin. Einn ágætis þjálfari benti mér pent á um daginn að ég hangi á klifurvélinni og slík beiting reyni lítið sem ekkert á líkamann. Í gær gat ég ekki"hangið" á vélinni út af bakinu heldur varð að standa upprétt, eða öllu heldur ég varð að nota vélaskrattann eins og á að gera. Mín náði varla andanum eftir 5 mínútur. Þarf spark í rassinn.
Las heilsublað moggans sem kom út á mánudaginn. Það er ekkert verið að leyfa fólki að láta samviskubit jólanna líða rólega hjá frekar en fyrri árin. Er löngu hætt að láta slíkan áróður angra mig en þó vakti athygli mína umræðan um lífrænt hráefni og matargerð. Eftir lesturinn kíkti ég á www.madurlifandi.is til að kíkja á uppskriftir. Á 15 hráefni hverrar uppskriftar hugsaði ég með mér hversu einfalt, ódýrt og fljótlegt það er að opna skyrdollu;-( En það er líka leiðinlegt og einhæft þannig að ég ætla reyna taka mig á, byrja rólega og sjá svo til. Það virðist líka vera miklir öfgar í þessu líkt og öðru og bendi ég á 10 grunnreglurnar máli mínu til stuðnings. Það má varla borða neitt samkvæmt þeirri hugmyndafræði. Og það sem má borða verður helst að vera frá þessum og þessum framleiðanda(vill svo vel til að þær vörur fást einmitt í ákveðinni verslun). Þetta hráfæði, eða hvað það kallast , á að vera voða gott fyrir ofnæmiskerfið en það er líka vitað mál að ef fólk tekur út einhverja fæðu til lengri tíma þá á líkaminn erfitt með taka hana aftur inn. Sem þýðir að ef fólk fer út í slíkar öfgar þá verður það veikt ef það fær sér loks"venjulegan mat"
Hvað á fólk þá að borða á ferðalögum erlendis?
Á endanum sýnist mér gamla hófsemin best, borða fjölbreytt og hreyfa sig.

Monday, January 02, 2006

Ekki viðbjargandi

Mér er ekki viðbjargandi. Var heima allt gamlárskvöld, drakk 3 glös af kampavíni og svona 30 kaffibolla til að halda mér vakandi þrátt fyrir fullt hús af fólki. Dæmigert fyrir mig að fyllast óútskýranlegri þreytu þá nótt sem flestir vaka en sofa lítið sem ekkert aðrar nætur. Nennti ekki einu sinni í björgunarsveitarpartý jafnvel þó mér væri sagt að þar væru nokkrir drengir sem hugsanlega gætu bjargað mér;-(
Foreldrar mínir fóru á nýársfögnuð hjá dansfélagi í gær. Pabbi hafði orð á að honum hefði liðið eins og línumanni sem hefði villst inn á fótboltavöll. Svona svipað og mér leið á salsaklúbbnum í Köben.
Er núna að reyna draga brósa á dansnámskeið svo ég verði gjaldgeng á klúbbum erlendis. Er hægt að fara ein á dansnámskeið??
Allavega nýársheitin eru dansnámskeið og að verða betri og bjartsýnni manneskja. Svo stendur Esjan enn á sínum stað;-)