skottuskrif

Wednesday, June 29, 2005

Stjörnuspár

Ég er farin að hallast að því að mamma skrifi stjörnuspána fyrir Moggann enda hlustar hún reglulega á röflið í mér. Nú þegar greiðsluseðillinn fyrir skólagjöldunum liggur á skrifborðinu og ferðalöngun mín er í hámarki hafa stjörnurnar verið óvenju næmar. Ég er skeptísk týpa en les stjörnuspána af gömlum vana og velti fyrir mér hvernig höfundur reynir að höfða til sem flestra. Svona hljóðar spá dagsins:
Ljónið myndi gjarnan vilja vera einhvers staðar annars staðar þessa dagana. Því finnst það þurfa að komast í burtu og í nýtt umhverfi. Fáðu útrás fyrir það með því að fara á nýjan stað.
Þessar setningar lýsa þönkum mínum afbragðsvel enda líður mér eins og ljóni í búri. Er löngu komin með upp í kok af landi og þjóð en finnst ég knúin til að klára skólann áður en ég fer út. Hvers vegna?? Jú það er skynsamast í stöðunni. Þoli ekki skynsemis og nytjahyggju en er fangi slíkra lífsgilda. Lifi eftir fyrirframskipuðum raunveruleika eins og ég eigi engra kosta völ. En við eigum alltaf val, við erum frjáls. Eins og margir þá varpa ég þessu frelsi fyrir róða. Af hverju? Jú það er auðveldara að láta hefðina skrifa lífssöguna en að gera það sjálf. Frelsi kemur á kostnað öryggis og óvissan er óþægileg. Þar af leiðir að nýtt umhverfi ljónynjunnar hlýtur að enda innan veggja búrsins. Kannski að ég fari í Fjarðarkaup en ekki Hagkaup næst þegar ég kaupi í matinn eða keyri nýja leið í vinnuna. Ég kemst ekki mikið lengra á milli vinnudaga en þegar ég útskrifast mun ég taka fyrstu flugvél út í óvissuna.



Sunday, June 26, 2005

Ærumeiðing

Nú er Bubbi að kæra 365 miðla fyrir umfjöllun Hér og Nú um meint framhjáhald Brynju og "fall" hans. Bubbi gagnrýnir misvísandi fyrirsagnir áðurnefnds blaðs og DV og segir þær til þess gerðar að sverta mannorð hans. Auðvitað kemur þetta mannorði hans ekkert við, blaðasalan er það eina sem skiptir þessa menn máli. Bubbi er svona Beckham íslenskra sorprita en er í þeirri óheppilegu stöðu að starfa hjá sömu fjölmiðlasamsteypu og á þessi blöð. Kannski hafa báðir aðilar haldið að þeir fengju sérmeðferð í ljósi stöðunnar, blaðamenn gengið lengra og Bubbi haldið að hann slyppi auðveldlega.
Persónulega gæti mér ekki verið meira sama um einkalíf Bubba en velti fyrir mér siðferðislegri hlið þessa máls. Voru þessar greinar eitthvað frábrugðnar þeim stíl sem blöðin hafa tileinkað sér hingað til???
Anyways þá er ég eitthvað dommaraleg þessa dagana. Komst að því að skólinn byrjar í lok ágúst en ekki miðjan Sept sem þýðir bæ bæ utanlandsferð og 0 dagar sumarfrí.
Eina jákvæða í mínu lífi þessa stundina er Bob Dylan þökk sé Einari Erni bloggara sem gefur lesendum reglulega smjörþefinn af hlustun sinni. Djöfull á Dylan mikið af góðum lögum. Það besta síðan ég byrjaði að hlusta á Zeppelin.
Jæja síðasta 6 vaktin í fyrramálið og yfir á 7 vakt sem mér er sagt að sér skömminni skárri.

Saturday, June 25, 2005

Svefnleysi

Það er lítið sem er eins slítandi og óreglulegur svefn. Mér nægir 6 tíma svefn og get aldrei sofið lengur en til 7 á morgnana. Ég er semsagt bæði kvöldugla og morgunhani. En þegar svefninn er svona stuttur má lítið út af bregða og í gær varð mér óglatt af þreitu. Síðustu 2 vikur hafa rústað svefnvenjum mínum. Ég ætlaði að skralla smá í kvöld en bara get það ekki. Var í fríi í dag en á morgun keyri ég inn í 10 daga vinnutörn, vill einhver skipta um líf???

Thursday, June 23, 2005

Samviskubit yfir samviskubiti.

Þetta er búin að vera súrasti dagur í sögu sumarsins. Einn af þessum everything is wrong dögum. Svaf í tvo og hálfan tíma í nótt vegna þess að ég dottaði óvart í 3 tíma í gærdag. Á miðnætti tók ég þá óheppilegu ákvörðun að horfa á einn þátt af Gray's Anatomy, áður en ég vissi voru þættirnir orðnir 4. Var með óráði í vinnunni síðasta klukkutímann en dreif mig áfram með óhóflegri Koffíndrykkju. Svalaði kaffinu niður með kóki OJJJJJ. Ég sem ætlaði bara að drekka te og vatn í vinnunni í sumar:-( Er með samviskubit yfir kaffiþambi og kyrrsetu. Það sem toppar síðan allt er samviskubitið sem ég hef yfir að hafa samviskubit yfir svona ómerkilegum hlutum. Ætti frekar að hafa samviskubit yfir óþarfa eyðslu og að vera ekki í hópi þeirra sem sinna sjálfboðavinnu í Sómalíu. Veit samt að næstu þættir af GA eiga eftir að bæta skapið. 85 töffarinn Patrick Dempsey kemur sterkur inn sem dr Sheperd, damn he's fine. Varð fyrst ástfangin af honum í Can't Buy Me Love og Patti hefur bara batnað með aldrinum. Hvar hefur hann eiginlega haldið sig öll þessi ár??
Annars er þessi sería algjör undantekning enda býður mér við svona sófaklessuháttum.

Tuesday, June 21, 2005

Ógleði

Hér með er ég hætt að borða kvöldmatinn yfir fréttatímanum. Í kvöld fór maturinn hálfa leið upp þegar sýndar voru myndir af uppgröfnu líki. Talið er að líkið, sem var af unglingsstúlku, sé frá árinu 700 fyrir Krist, ekki mjög lystaukandi sýn. Verð samt alltaf að vera lesa, tala eða horfa sjónvarpið þegar ég borða, leiðinlegur ávani. Ég er í rosa grænmetis og ávaxtaátaki. Tókst til dæmis í gær að borða kíví, appelsínu, epli og Salat allt á einum degi, húrra húrra húrra. Vona bara að ég vakni ekki með Kálhaus á morgun, harí harí harí.

Sunday, June 19, 2005

Konur eru líka menn!!!

Til hamingju með daginn allir.
Ég ætla ekki að vera með langan pistil um jafnrétti kynjanna. Bendi samt á 54 árgang kvenréttindablaðsins 19. júni sem fylgdi mogganum í dag. Blaðið er vel skrifað og pistlarnir ná yfir helstu skörunga og málefni íslenskrar jafnréttisbaráttu fyrr og síðar. Ritstjórinn dreypir á að ekki hafi alltaf verið skilningur á baráttu kvenna og að þær hafi oftar en ekki þurft að gera hlé á fundarhöldum í hádeginu til að gefa mönnum sínum að borða. Aftar í blaðinu fjallar ungur karlmaður um stöðu sína sem feminsti og segist oft fá ofurjákvæð viðbrögð hjá konum, líkt og karl í jólaboði sem fer með diskinn sinn í uppþvottavélina, voða duglegur!!! Hvet alla til að lesa blaðið sem tekur líka á ógnvekjandi málefnum eins og mannsali og kynbundnu ofbeldi(Forever Lila er átakanleg mynd um slíkan viðbjóð)
Þó ég sjái stundum gömlu tímana í hyllingum, síldarævintýri og ástand, dansandi konur í takt við fágaða Kana, rómantíkin allsráðandi og lífsgæðakapphlaup í lágmarki, þá hefði ég verið ömurleg húsmóðir af gamla skólanum. kattþrifin Ajax unnandi en klaufsk í eldhúsinu. Held ég verði vanhæf móðir enda hefur mér tekist að drepa kaktus. Hvernig hefði ég verið ein með stóran krakkaskara, kannski 6 börn. Já takk fyrir breytta tíma!!
Skammast mín pínu fyrir að hafa ekki skundað á Þingvelli, heiðraði í staðin bleika litinn í náttfatavali og kláraði Fólkið í Kjallaranum. Bókin er alveg í anda dagsins, feikna vel skrifuð en langdregin á köflum.
Að mínu mati þarf nútímakonan að trúa meira á sjálfa sig sem og á aðrar konur. Á meðan við vantreystum kynsystrum okkar getum við tæpast búist við meira trausti frá körlum.
Jæja ætla að sökkva mér í Angels and Demons, sofna kl 10 og vakna meðan aðrir sofa.

Thursday, June 16, 2005

6 vaktir

Er búin að vera á 6 vöktum þessa vikuna og tek þær líka í næstu viku. Ég hélt að þetta væri þvílíkur lúxus að mæta kl 6 og vera búin á hádegi. En sá hængur er á að ég vakna kl 5 og eftir vinnu er ég dauðþreitt. Er nefnilega búin að venja mig á að vaka fram yfir miðnætti við lestur eða sjónvarpsgláp. Þegar heim er komið get ég ómögulega staðist freistinguna að fá mér smá blund. En þessi smá blundur verður alltaf djúpur 2 tíma svefn og þegar ég loks vakna ætla ég aldrei að koma mér fram úr. Reyndar var nótó að borða utandyra í bongóbliðu á Thorvaldsen í hádeginu í gær með Eddu, Sigrúnu og Auby, þannig að þessar vaktir eru ekki alslæmar.
Annars fór ég í afmæli til Elínar og Rebekku síðustu helgi og það var mikil gleði. Kíktum síðan á Oliver en komum frekar seint þannig að ég missti af fólki sem ég hefði gjarnan viljað hitta. Það var pínu skondið að skima yfir mannflóruna þar sem staðurinn er að mótast og engar ákveðnar týpur ráðandi. En mikið askoti var ég þunn á sunnudaginn ojjjj. Skil ekki hvernig fólk fer að því að skemmta sér allar helgar og jafnvel báða dagana. Náði samt að slefast á leiguna, tók Closer og Bend it like Beckham sem voru báðar góðar en sú síðari kom skemmtilega á óvart.
Er núna að horfa á Grímuna en hef greinilega annan húmor en íslenskir leikarar. Held ég leggi mig þangað til DH byrjar.
Svo er það bara 6 á þjóðhátíðarmorgun:-(

Thursday, June 09, 2005

Hvað er málið?

Ég stóð sem sagt í Smáralindinni í tvo tíma í dag og kynnti MÁLIÐ sem er nýtt tölublað sem fylgir Mogganum á fimmtudögum. Ágætt blað í líkingu við Fókus. Hef nokkrum sinnum verið í svona kynningum fyrir Moggann og það er bara alveg ágætt, hitti fullt af fólki sem ég hef ekki séð í langan tíma. Verð aftur á morgun frá 16 til 18, endilega komið og segið hæ.
Annars er kvefið aðeins betra. Fór að ráðum Ragnhildar og svitnaði þessu úr mér í ræktinni í morgun. Fór meira að segja aðeins í tækin sem ég er næstum hætt að nenna. Það eru svo mörg ný tæki þarna í Laugum sem ég kann ekkert á. Var að reyna að stilla eitthvað fótatæki en ekkert gekk. Horfði hvolpaaugum í kringum mig þangað til einn þjálfinn sá aumur á mér og hjálpaði mér. Hann er Breti og ekkert killer sætur en þegar hann byrjaði að tala er eitthvað svo rosalega krúttaralegt við hreiminn. Hann var að leiðbeina mér með líkamsstellinguna og ég bara kiknaði í hnjánum en var heppin að það var einmitt það sem hann var að laga hjá mér"bend your knees, thats right" Kannski ég flytji bara til Bretlands til að finna mér mann.
Já svo er bara að koma helgi.

Wednesday, June 08, 2005

Kvöl

Ég hef oft kveikt á poppTV við tiltektir. Lögin sem eru spiluð eru auðvitað misjöfn en áðan ofbauð mér svo að ég slökkti á sjónvarpinu. Hélt svei mér þá að verið væri að kvelja kött en þá var einhver Ameria að skrækja þetta líka hræðileg lag. Skrækjan var voða sæt og flott en það er ljóst að útlit getur ekki gert kraftaverk. Aðrar álíka hörmungar eru nýja lagið hennar JLO, hjálpi mér. Ég er alveg hlynnt jafnrétti en væri sátt við minnkað hlutfall kvenkyns"söngvara" ef þetta er framboðið í dag. Þar sem Evróvision er á enda finnst mér líka í lagi slökkva á Selmu.

Tuesday, June 07, 2005

Sorgleg

Aumkunarvert líf mitt veldur mér töluverðum áhyggjum þessa dagana. Ég er búin að vera veik frá því á föstudag og kenni sumarfatnaði um að svo fór. Á fimmtudagsmorgun var ég í ræktinni að lyfta og var að hlusta á útvarpið í leiðinni. Nema hvað að hnakkarnir og píurnar gerðu ekki annað en að lofsyngja veðrið og hvöttu alla til að fækka fötum og njóta blíðunnar. Auðvitað fékk ég þetta rosa samviskubit yfir að hanga inni á líkamsræktarstöð eins og bavíani. Það hefði verið mikið heilbrigðara að labba Esjuna, fara á línuskauta eða í sund. Ákvað sundferð næsta morgun til sefjunar. Fór svo léttklædd í vinnuna eftir hádegi. Ég var semsagt blá úr kulda restina af deginum. Ef ég hefði bara kíkt á veðrið á mbl(og séð allar 10°) í stað þess að treysta þessum þorskum í útvarpinu væri ég örugglega stálslegin í dag. Mætti heit og hás í vinnuna um helgina og þegar heim kom hennti ég mér strax í rúmið. Á mánudaginn kýldi kvefið mig loks niður, ætlaði reyndar að mæta í vinnuna en yfirmaður minn taldi mig á að vera heima og súpa te.
Eftir reynslu síðustu daga hef ég ákveðið tvennt.
1. Ætla að kaupa mér Ipot svo ég þurfi ekki lengur að hlusta á útvarpið í ræktinni.
2. Ætla ekki að kaupa mér fleiri sumarföt.

Og hananú.

Friday, June 03, 2005

Sumargjöfin HENNAR!!!

Ligg upp í rúmi að deyja úr hálsbólgu og kvefi. Ég vissi að þetta myndi gerast. Fór voða sumarleg í vinnuna í gær í pilsi og léttri gollu enda sól og blíða. Í kaffitímanum sprangað ég svo yfir í HM og leiðinni til baka byrjaði að rigna. Það var eins og himnarnir hefðu beðið með að sturta niður þangað til ég fór út. Jamm sumu fólki fylgir bara regnský og ég er ein af þeim. Fer að vinna kl 1. í dag, ætlaði auðvitað að fara í ræktina í morgun og svo í sund eða á bæjarrölt en þá kom kvefið. Það er nú ósköp þægilegt að geta lesið blöðin, borðað morgunmat og drukkið kaffi með stóískri ró. Morgunblaðið er eina blaðið sem ég les eitthvað að ráði hinum fletti ég. En ég viðurkenni með roða að ég Les Birtu sem er örugglega þykkasti auglýsingapésinn, shame on me. Eins og flestum konum er kunnugt um kemur Birta út á föstudögum. Í dag er föstudagur, vei fyrir alla þá sem ekki eru að vinna um helgina. Allavega í Birtu er heilsíðu auglýsing undir yfirskriftinni "Sumargjöfin hennar". Nei! það er ekki verið að auglýsa skartgripi, fótasnyrtingu, snyrtivörur, töskur, skó eða matreiðslunámskeið fyrir menn. Það er verið að auglýsa undirföt. Ok ef þetta væru nú þægileg, smekkleg og nothæf nærföt en þetta eru samfellur og búningar. Hjúkkubúningur, skylmingarbúningur, slökkviliðs og löggubúningar að ógleymdu Fantasy latex dressi. Ég vil nú ekki hljóma eins og einhver tepra og sumt þarna er ok, en það sem mér finnst hlægilegast er yfirskriftin sumargjöfin hennar. Þetta er ekki sumargjöfin hennar heldur hans!!!!. Ég myndi móðgast ef kærastinn gæfi mér svona dress í sumargjöf. Það væri miklu frekar ég sem gæfi honum sjálfa mig í svona dressi, ekki rétt??? Ég hef oft skammað ákveðna aðila fyrir að gefa konunum nærföt af einhverju sérstöku tilefni því þeir eru í raun að gefa sjálfum sér aðal gjöfina. Þessir sömu aðilar gefa núna fljóðunum slíkar dásemdir í einskonar auka gjafir meðfram einhverju öðru sem er gagnlegra fyrir þær sjálfar, og allir eru glaðir. Kannski er ég eitthvað skrítin og kannski eru samfellur og búningar efst á óskalistum kvenna fyrir sumarið, veit ekki. Að lokum þá stendur í auglýsingunni að ef verslað er fyrir 6000 krónur eða meira fylgir kanínubúningur með í kaupbæti!!! Æi þetta er eitthvað svo ódýrt allt saman.