Stjörnuspár
Ljónið myndi gjarnan vilja vera einhvers staðar annars staðar þessa dagana. Því finnst það þurfa að komast í burtu og í nýtt umhverfi. Fáðu útrás fyrir það með því að fara á nýjan stað.
Þessar setningar lýsa þönkum mínum afbragðsvel enda líður mér eins og ljóni í búri. Er löngu komin með upp í kok af landi og þjóð en finnst ég knúin til að klára skólann áður en ég fer út. Hvers vegna?? Jú það er skynsamast í stöðunni. Þoli ekki skynsemis og nytjahyggju en er fangi slíkra lífsgilda. Lifi eftir fyrirframskipuðum raunveruleika eins og ég eigi engra kosta völ. En við eigum alltaf val, við erum frjáls. Eins og margir þá varpa ég þessu frelsi fyrir róða. Af hverju? Jú það er auðveldara að láta hefðina skrifa lífssöguna en að gera það sjálf. Frelsi kemur á kostnað öryggis og óvissan er óþægileg. Þar af leiðir að nýtt umhverfi ljónynjunnar hlýtur að enda innan veggja búrsins. Kannski að ég fari í Fjarðarkaup en ekki Hagkaup næst þegar ég kaupi í matinn eða keyri nýja leið í vinnuna. Ég kemst ekki mikið lengra á milli vinnudaga en þegar ég útskrifast mun ég taka fyrstu flugvél út í óvissuna.