skottuskrif

Tuesday, June 07, 2005

Sorgleg

Aumkunarvert líf mitt veldur mér töluverðum áhyggjum þessa dagana. Ég er búin að vera veik frá því á föstudag og kenni sumarfatnaði um að svo fór. Á fimmtudagsmorgun var ég í ræktinni að lyfta og var að hlusta á útvarpið í leiðinni. Nema hvað að hnakkarnir og píurnar gerðu ekki annað en að lofsyngja veðrið og hvöttu alla til að fækka fötum og njóta blíðunnar. Auðvitað fékk ég þetta rosa samviskubit yfir að hanga inni á líkamsræktarstöð eins og bavíani. Það hefði verið mikið heilbrigðara að labba Esjuna, fara á línuskauta eða í sund. Ákvað sundferð næsta morgun til sefjunar. Fór svo léttklædd í vinnuna eftir hádegi. Ég var semsagt blá úr kulda restina af deginum. Ef ég hefði bara kíkt á veðrið á mbl(og séð allar 10°) í stað þess að treysta þessum þorskum í útvarpinu væri ég örugglega stálslegin í dag. Mætti heit og hás í vinnuna um helgina og þegar heim kom hennti ég mér strax í rúmið. Á mánudaginn kýldi kvefið mig loks niður, ætlaði reyndar að mæta í vinnuna en yfirmaður minn taldi mig á að vera heima og súpa te.
Eftir reynslu síðustu daga hef ég ákveðið tvennt.
1. Ætla að kaupa mér Ipot svo ég þurfi ekki lengur að hlusta á útvarpið í ræktinni.
2. Ætla ekki að kaupa mér fleiri sumarföt.

Og hananú.