Safnarar
Var að velta fyrir mér kenningum um veiðieðli karla og söfnun kvenna. Það þekkja allir forsöguna um manninn á veiðum fjarri heimahögum og konuna sem safnaði jurtum og öðrum nytjum í nágrenninu. Sagan er gjarnan notuð til að útskýra mun sem finnst á atferli kynjanna. Konur eru áttavilltari því þær þurftu ekki rata til baka úr veiðiferðum , og þar sem auðveldara var að klöngrast með drasl fyrir horn en að draga það langar leiðir eru þær duglegri að sanka að sér hlutum. Karlar leggja upp með skýrari markmið, drepa bráð, meðan konur vita síður hvers þær leita og þreifa sig áfram. Fært til nútímans þá fara fáir karlmenn(ótilneyddir) í búðir að skoða, þeir fara til kaupa eitthvað ákveðið, skyrtu eða bindi, konur þurfa helst að koma við allar flíkurnar í búðinni. Ég man nú ekki alveg hvernig allar þessar kenningar hljómuðu en það er ljóst að einhver smá snúningur er í minni fjölskyldu. Til að mynda man ég ekki eftir að hafa safnað einhverju síðan ég var 8 ára. Þjóðarbrúður, servíettur og ilmvatnsprufur, punktur. Mamma safnar engu svo ég viti til og ekki systir mín heldur. Hér myndu sumir stoppa mig og segja að ég safnaði skóm, töskum, glingri og fötum. En ég lít ekki svo á að þetta séu safnmunir, ekki hendir fólk eða gefur reglulega af safninu sínu. Málið er að bræður mínir og pabbi eru allir ötulir safnarar. Til dæmis safnaði pabbi einu sinni merktum pennum. Voða flottir Sjóvá,Toyota, Eimskips, og Landsbankapennar fylltu allar skúffur. Í dag safnar hann hljóðfærum(sem er alveg efni í færslu út af fyrir sig). Ég þarf ekki lengur að fara á Videoleigu því báðir bræður mínir safna DVD og sá eldri safnar ævintýrabókum og geisladiskum. Ekki má svo gleyma afa mínum sem safnar sjálfteknum myndum af íslenskum kirkjum, spennandi!
Niðurstaða mín er semsagt sú að það er villandi að segja að konur hafi "Safnað" því væntanlega voru jurtirnar étnar og kurlið brennt, allavega voru þær ekki að safna óþarfa.
Að lokum eruð þið að safna einhverju?
Niðurstaða mín er semsagt sú að það er villandi að segja að konur hafi "Safnað" því væntanlega voru jurtirnar étnar og kurlið brennt, allavega voru þær ekki að safna óþarfa.
Að lokum eruð þið að safna einhverju?