skottuskrif

Friday, March 31, 2006

Sinubruni

Mæli með að allir fari út og þrífi bílinn sinn, þá mun pottþétt rigna á morgun!!!

Thursday, March 23, 2006

Jákvæðni.

Er að reyna tileinka mér þann hæfileika sem kallast bjartsýni. Af því tilefni ætla ég að reyna finna eitthvað jákvætt við allt sem geri eða verður á vegi mínum.
En svona til að útskýra tilkomandi bloggleysi þá er ég byrjuð í viku heimaprófi í Geðheilsufélagsfræði. Þarf að skrifa nokkrar stuttar ritgerðir eða um 15 blaðsíður, púff. Það jákvæða er að mér finnst efnið skemmtilegt og eftir viku verð ég búin með fagið! Jibbí.
Svo vil ég nota tækifærið og koma því á framfæri að ég á BESTA bróðir í heimi. Litli snáðinn kom til mín og tjáði mér að hann væri búinn að kaupa afmælisgjöfina mína. Þessi elska ætlar að gefa mér miða á tónleikana með Roger Waters. Mig langaði nefnilega ótrúlega að fara en peningaskortur stendur Skottunni fyrir þrifum á mörgum sviðum lífsins þessa dagana;-(Það jákvæða er að ég get ekki orðið fátækari!
Að lokum, eru hestar byrjaðir að missa vetrarhárin fyrir sumarið? Ég er nefnilega að verða sköllótt og var að velta fyrir mér hvort það tengdist árstíðarbreytingum. Það jákvæða er að 3 hár eru léttari en 300,000.
Damn þessi jákvæðni er erfið.

Monday, March 20, 2006

Bílaflotinn

Er það bara ég eða er Range Rover faraldur í Reykjavík? Fjöldinn fer að líkjast BMW flota Þjóðverja. Ég taldi 6 Rovera á leiðinni í ræktina um daginn sem nótabene var 5 mínútna akstur. Til að skekkja ekki niðurstöðuna tók ég bílastæði Lauga ekki með í reikninginn( talan hefði margfaldast í hádeginu þegar jakkafötin sprikla:) Tók líka eftir að ökumennirnir voru flestir að tala í símann undir stýri, örugglega til að undirstrika mikilvægi sitt.
Jamm Míkran mín er öfundsjúk. Ef ég ætti peninga myndi ég samt frekar kaupa mér HUMMER! Það eru tryllitæki. Myndi líka splæsa í bílstjóra til að tryggja öryggi annarra borgara;-)

Að lokum. Ég veit að það er ljótt að gagnrýna nýgræðinga en mér líður virkilega, virkilega illa þegar nýja fréttaþulan á NFS birtist á skjánum!

Thursday, March 16, 2006

íslenska vatnið.

Mér finnst þessi vatnalög hálfsorgleg. Ég elska sturtuna mína og ískalt vatn úr krana. Auk þess er ég með svo litla pissublöðru þannig að vatnsreikningurinn verður svaðalega hár(verð kannski látin míga úti í annað hvort skipti!!) En svona í alvöru talað, þá munu þessi lög örugglega breyta ýmsu sem áður þótti sjálfsagður hlutur. Ætli fólk verði ekki rukkað fyrir að skola af bílum á bensínstöðvum, og látið borga fyrir klakana í kókið?
Be prepared og grafið fyrir vatni í bakgörðunum heima hjá ykkur og byggið brunn;-)

Monday, March 13, 2006

Bandaríska blessunin

Fór á umræðufund í dag undir yfirskriftinni; Hvað er Bandaríkjastjórn að vilja í Miðausturlöndum. Michael Rubin sérfræðingur í málefnum Miðausturlanda hjá bandaríska varnarmálaráðuneytinu hélt stutta tölu og sat síðan fyrir svörum. Rökin hans voru ekkert ný af nálinni. Bandaríkjamenn sofa ekki vært fyrr en lýðræði, tjáningarfrelsi og jafnrétti verða að veruleika í Miðausturlöndum. Rubin hefur kannski haldið að auðvelt yrði að tala til þjóð sem trúir á álfa og tröll. Hann hélt því staðfast fram að innrásin hefði ekkert að gera með olíu eða aðra hagsmuni Bandaríkjanna, neib bara góðgerðarstarfsemi. Auk þess baunaði maðurinn út úr sér bröndurum sem mér fannst ekki við hæfi þegar umræða snýst um stríð.
En allavega þótt fjölmiðlar hafi greint frá hörðum mótttökum háskólasamfélagsins fór fundurinn friðsamlega fram, engin eggjaköst eða öskur.
Að lokum hvað á mín að gera í sumar?? Er alveg tóm í hausnum. Sem betur fer er fjöldi áhugaverða ræstingarstarfa í boði. Það er deginum ljósara að sá sem semur svona auglýsingu hefur aldrei á ævinni skúrað. Annars var Holtakjúklingur að auglýsa í annað skiptið eftir starfsmanni í kjúklingaverkun. Býst við að starfið verði áfram laust ef allt fer í þrot.

Friday, March 10, 2006

Stóri Bróðir

Egill Helga fór með ágætis pistil í kvöld þar sem hann fjallaði um aukið eftirlit með þegnum samfélagsins. Kreditkortin sjá til að hægt er að rekja slóð fólks, fylgjast með neysluvenjum og lífsstíl. Nú á að setja tæki í alla bíla sem skráir aksturshraða(símælir) þannig að lögreglan geti kannað hvort farartækjum hafi verið ekið yfir leyfilegu hámarki. Það sjá líka allir sem keyra um götur Reykjvíkur að fjöldi myndavélaskilta og hraðamæla hafa margfaldast. Að sjálfsögðu eru ekki myndavélar alls staðar þar sem skilti eru en fólk veit ekki hvar, óvissan nægir. Tilgangurinn= forvörn
Í fyrra voru umræður um hvort lögreglan ætti að fá leyfi til að hlera símtöl án dómsúrskurðar og ekki má gleyma umdeildum gagnagrunni íslenskrar erfðagreiningar.
Eftirlitsmyndavélar, upptöktæki, og afkastamælar eru í auknu mæli notuð til að fylgjast með starfsfólki vinnustöðum. Í einum kúrs í skólanum var fjallað um þetta efni. Kennarinn gerði rannsókn á sálrænum áhrifum slíks eftirlits á starfsfólk. Í hátæknifrystihúsum eru afkastamælar sem skrá hversu marga fiska konur verka á ákveðnum tíma. Í einu þeirra var sett upp súlurit á kaffistofunni sem sýndi afköst allra og nöfnin sett fyrir ofan. Síðar var kvartað yfir þessu fyrirkomulagi og þá var nöfnunum sleppt, en allir vissu hver átti hvaða súlurit.
Tilgangurinn= hvatning og aukin afköst. Atvinnurekandinn sér hvenær dagsins og hvaða daga starfsólkið stendur sig verst og best. Hann getur líka séð afkastamynstur og ályktað út frá þeim. Ef kona er alltaf undir meðallagi á ákveðnum tíma mánaðarins er hún kannski á túr, ef mánudagarnar eru alltaf slakari en aðrir dagar er skemmtanagleðin örugglega óhófleg, etc, etc,. Fólk sem vinnur á síma er líka undir eftirliti. Fylgst er með fjölda og lengd svaraðra símtala, sem og úthringingum. Mórall á vinnustað= Djö hún Sigga er alltaf svo dugleg og lætur mig líta illa út!!!, Vissulega eiga duglegir einstaklingar hrós skilið, en hraði segir lítið um gæði vinnunnar.
Eitt öfgadæmi var þegar Persónuvernd fékk fyrirspurn frá gjaldkera í banka. Konan hafði verið kölluð á teppið hjá yfirmanni sínum sem taldi ekki við hæfi að hún færi á ákveðinn skemmtistað um helgar. What! Jú kortið kom upp um hana. Tilgangurinn=ímynd bankans.
Þó slíkt eftirlit sé óþægilegt getur starfsfólk lítið sagt. Hvers vegna? Jú ef það kvartar þá er eins og það hafi eitthvað að fela!
Talað er um að setja upp eftirlitsvélar í skólastofum og fyrirlestrarsölum. Tilgangurinn; Gæði kennslu? eftirlit með pólítískum áróðri? Ofbeldi?
Í Bretlandi verða u.þ.b 23% kvenna fyrir heimilisofbeldi og í hverri viku eru að meðaltali 2 konur drepnar í heimiliserjum. Vitað er að misnotkun á börnum er oftast af hálfu náins ættingja. Hvenær kemur eftirlitið inn á heimilið?
Hversu langt eiga og meiga ríki og fyrirtæki ganga í slíku taumhaldi? Er þessi þróun af hinu góða?

Wednesday, March 08, 2006

Ömmuknús

Hún á afmæli í dag, hún á afmæli í dag hún á afmæli hún amma hún á afmæli í dag.
Ég á alveg hreint magnaða ömmu. Þó hún smyrji enn ofan litla strákinn sinn á sextugsaldri(pabba) þegar hann kemur í heimsókn þá lít ég frekar á hana sem vinkonu mína en ömmu. Við höfum drukkið saman kaffi frá því ég ponsa, fyrst úr bollastelli og svo úr alvörunni. Við tölum saman um heima og geima enda sú gamla inni á flestum sviðum. Hún les öll blöð, fylgist með fréttatímum bæði í sjónvarpi og útvarpi, les slúðrið eins og henni sé borgað fyrir það og horfir á box fram nætur. Tíska, vinir, strákar, skólinn og skemmtanir, You name it, ég tala við ömmu. Svo höfum við líka svipaðan smekk á karlmönnum, höfum vegið og metið flesta frétta, stjórnamála og athafnamenn og haft gaman af:-)
Í dag langar mig ekkert sérlega í börn, veit ekki af hverju en býst við að karlmannsleysið eigi sinn þátt í hljóðum eggjastokkum. En eitt veit ég og það er að mig langar að verða AMMA.
Verð kannski útlánsamma í framtíðinni;-)
Allavega, hvernig sem viðrar í hausnum á mér, hvort sem það er tár eða hlátur þá líður mér alltaf betur eftir heimsókn í Múlann.
Fátt er betra en ömmuknús, hún er líka svo mjúk.