skottuskrif

Monday, October 31, 2005

Forspá

  • In 1895, Lord Kelvin, president of the Royal Society in England, said,"Heavier-than-air flying machines are impossible"
  • In 1929, Irving Fisher, professor of economics at Yale, said, " Stocks have reached what looks like a permanently high plateau
  • In 1958, Thomas., J. Watson the chairman of I.B.M said, " I think there is a world market for about five computers."

Kannski ættu menn bara að einbeita sér að núinu í staðinn fyrir að rýna of langt inn í framtíðina;-)

Friday, October 28, 2005

Auglýsingapési

Ég er mjög þakklát fyrir að fá Fréttablaðið frítt inn um lúguna hjá mér, en verð að lýsa vonbrigðum með óhóflegar auglýsingar að undanförnu. Það er ekki eins og maður hafi allan tíma í heimi til að fletta blöðunum,(mínútan er dýrmæt á morgnana) og þegar hver heilsíðuauglýsingin á fætur annarri kemur við flettingu er blaðinu einfaldlega hent í tunnuna. Fréttablaðsmenn ættu að taka Birtu til fyrirmyndar hún setur allan auglýsingapakkann aftast. (Kannski ekki besta auglýsingatæknin). Annars var ég að fletta Mogganum áðan og gat ekki annað en hlegið að athugasemd eldri borgara varðandi nýja útlitið á veðurfréttum sjónvarpsins. Viðkomandi finnst of hratt farið yfir og saknar þess að sjá aldrei hitamælingar á Grænlandi!!! Ótrúlegt hvað fólk getur verið vanafast, engu má breyta. Það varð víst líka uppi fótur og fit þegar Mogginn tók Ferdinand út úr teiknimyndasögunum. Held meira segja að til sé íslenskur Ferdinand aðdáendaklúbbur, meðlimir mótmæltu allir.
Svona að lokum þá er Landsbankinnn að bjóða pabba til London á morgun á fótboltaleik. Ætli ég fái að fara með ef ég færi viðskipti mín til þeirra?? Fengi örugglega bara dagatal eða bauk:-(

Thursday, October 27, 2005

Krúsing

Ég er aldrei eins dugleg að krúsa á netinu eins og þegar ég á að vera lesa undir próf, merkilegur andskoti. Er til dæmis búin að bóka ferð til Köben eftir prófin, velja hótel og alles, Jibbý. Annars situr þetta blessaða lAUGARDAGspróf eitthvað í mér. Ég er með tengil á heimasíðu kennslubókarinnar þar sem hægt er að æfa sig á krossaprófi úr hverjum kafla. Eini gallinn við þessi próf er að þau kanna bara þekkingu nemenda á námsefninu, en slík er ekki alltaf raunin í krossaprófum HÍ. Ef prófin í Bandaríkjunum eru eitthvað í líkingu við þessi netpróf er engin furða að íslenskir námsmenn standi sig almennt vel þegar þeir fara utan. Það er ekkert verið að flækja hlutina, annað hvort kanntu efnið eða ekki. Hinsvegar býst ég við hinu versta á laugardaginn og við lesturinn reyni ég að sjá fyrir hvernig kennarinn gæti snúið út úr þessu og hinu.
Svona til gamans þá fjallar einn kaflinn um kynlífsraskanir, þó þær séu auðvitað ekkert gamanmál þá finnst mér þetta case study pínu fyndið:
"Philip likes shoes- women's black patent leather shoes, to be exact. He has hundreds of pairs, which he keeps in a special room in his house. Many nights, he goes to that room, undresses partially og totally, and lies amid the shoes as he masturbates. He reaches orgasm quickly and experiences a deep sense of sexual pleasure"

Ég fór bara hugsa um svipinn á Sála þegar viðkomandi lýsti þessu fyrir honum.

Sunday, October 23, 2005

AAAAAtjÚUUU

SnEEEEEEEEZZZZZZEEEEE. Ekki nóg með að ég hafi verið veik meiripartinn af síðustu viku heldur er ég svo kvefuð, að fólkið í vinnunni hafði ekki í sér að kvarta(mikið) við mig. Ein elskuleg kona benti mér á að fara heim og leggjast upp í rúm. Var semsagt að koma heim og er síðustu vinnuhelginni þar með lokið, allavega í bili. Eftir veikindin er ég eftir á í lestri og það er mjög erfitt að byrja læra eftir að hafa talað í símann stanslaust í 6 tíma. Klukkutímatörn skal það verða og svo sæng upp í sófa og DVD.
Vonandi verð ég betri á morgun svo ég geti þrammað niður á Ingólfstorg.

Thursday, October 20, 2005

MMMM Formaðurinn

Bara varð að koma ummm inu frá mér, en ég sit núna og er að horfa á Sigurstein Másson í Íslandi í Dag. Sigursteinn er ekki einungis fjallmyndarlegur heldur kemur hann vel fyrir, talar skýrt og skorinort, og hefur með eindæmum fallegt bros.
Sigursteinn er THE Formaðurinn.
Vil líka benda á greinina sem Sigrún Sælfræðiskvís skrifaði í Morgunblaðið í dag. Sjálfsagt hafa flestir hryllt sig yfir frásögn hafnfirsku systranna í Tímariti Mbl. Eins og eins og Sigrún bendir á er ótrúlegt að slíkur viðbjóður hafi verið látin viðgangast beint fyrir framan nefið á Pétri og Páli.
Sigrún og Sigursteinn fá því bæði hrós fyrir vel unnið dagsverk.

Ups and downs in the family

Jamm það er óhætt að segja að ástandið í fjölskyldunni hafi ekki verið upp á marga fiska þessa vikuna. Gamanið byrjaði í síðustu viku þegar Íris sys kom með familíuna sína í fararbroddi sem lagðist öll í ælupest og hita(skemmtilegir gestir). Ég prísaði mig sæla fyrir að sleppa við ósköpin, enda tek ég samviskusamlega vítamín og Omega 3 , duleg delpa. Eftir 2 daga var allt heimilisfólkið komið með þessa ógeðslegu pest, hitinn hjá mér fór upp í 39,5 gott fólk og ég lýg því ekki að ég hélt að hausinn á mér myndi springa. Í sólarhring fór ekkert inn í likama minn nema stöku stílar, ok too much information, ég veit, vil bara að þið takið þátt í þjáningu minni. Allt sem fór niður fór annað hvort upp aftur eða barði á bakdyrnar OJJJJ. Smitberarnir hafa haldið heim á leið en Íris systir hringir reglulega til að spyrja hvort þeim sé fyrirgefið, hmmm????? Við skulum bara segja að jólagjafirnar okkar þurfi að vera veglegar þetta árið;-)

Monday, October 17, 2005

Fuglaflensan.

Ég er að hugsa um að flytjast á Norðurpólinn, það koma örugglega engir farfuglar þangað, eða hvað????

Saturday, October 15, 2005

Spari spari spari

Fá borgarbúar aldrei leið á kringlunni? Kom við í Hagkaup í morgun á leiðinni í vinnuna(kl 10.30) OG ÞURFTI AÐ LEITA AÐ BÍLASTÆÐI. Vonandi tekst einhverjum að SPARA á kringlukasti, þó sparnaðurinn yrði örugglega meiri ef það sleppti því að fara.

Friday, October 14, 2005

Ísland, besta land í heimi?

Er að lesa um áfallastreituröskun( Posttraumatic Stress Disorder(PTSD)) í klínískri Sálfræði. Svona fyrir leikmenn þá er áfallastreituröskun flokkur einkenna sem sumt fólk upplifir eftir að hafa lent í einhverskonar áfalli(bílslysi, fellibyl, stríði, pyntingu, nauðgun, etc). Í bókinni er umfjöllun um flóttamenn stríðshrjáðra landa og hörmungarnar sem þeir upplifa. Eftir þennan lestur þakka ég fyrir að búa á litlu vernduðu skeri. Kannski er 'Island besta land í heimi.

Wednesday, October 12, 2005

Firring

Sjónvarpsdagskráin er stútfull af raunveruleikaþáttum. Hversu "raunveruleika"firrt erum við orðin ef þörf er að sýna okkur allar hliðar lífsins í gegnum sjónvarp? Svona svipað og að tjá sig reglulega út í bláinn í blogginu sínu í stað þess að fara í heimsóknir og ræða málin.

Monday, October 10, 2005

Glæpur gegn mannkyni

Þrefalt húrra fyrir Ríkisjónvarpinu. Húrra Húrra Húrra. Fyrsti þátturinn af nýja Kastljósinu kom barasta skemmtilega á óvart. Kannski er fjöldi spyrla aðeins ofaukin en sætar stelpur draga fleiri andlit að skjánum. Það er langt síðan ég hef setið föst yfir Ríkissjónvarpinu í rúma 2 tíma. Beint á eftir Kastljósinu var heimildarmynd um þjóðarmorðin i Darfur. Ég vona að sem flestir hafi séð myndina og skammast sín fyrir afskiptaleysi vestrænna þjóða. Allavega ættu Bush og Blair að búa í skammarkróknum.