skottuskrif

Friday, August 05, 2005

25 dagar

Það eru 25 dagar eftir í vinnunni. Mikið lifandi skelfingar ósköp verð ég fegin að hætta í vaktavinnu, á engan veginn við mig. Lítur ekki út fyrir að ég fari neitt utan þetta sumar, ástæðan er einföld, mig vantar ferðafélaga. Hef íhugað að fara ein þó það hljómi frekar dapurlega. Sitja ein og snæða og fara ein að skoða söfn. Ekki svo að skilja að mér myndi leiðast, þvert á móti skemmti ég sjálfri mér ágætlega. Sé til. Skottan skoðaði tekjublaðið í dag. Gaman að forvitnast um laun gamalla kennara og fleiri. Er útgáfa blaðsins landlæg forvitni Íslendinga eða tíðkast slík birting víðar? Veit ekki en óar við ofurlaunum ónefndra aðila. Bilið á milli ríkra og fátækra breikkar og breikkar, það er synd. Skottan man nefnilega vel eftir þegar hún var í kvöldskólanum síðasta árið. Á daginn vann hún í versluninni Inni og nokkur kvöld í mánuði í Söluturninum Ríkinu á Snorrabraut. Fædd og uppalin í kringluhverfinu 108 varð skottan yfir sig bit þegar hún sá útganginn á sumu fólkinu sem verslaði í Ríkinu. Hún vissi einfaldlega ekki að slíkt ástand væri að finna á Íslandi. Viðskiptavinir INNI, sem flestir voru snobbaðir minimalistar, sáu lítið athugavert við 40 þúsund króna ruslatunnur. Á meðan tíndu óskabörn ógæfunnar síðustu krónurnar úr veskinu til að eiga fyrir vindli. AF þessum tveimur kúnnahópum fannst mér yfirborðskennd INNIpúkanna samt sorglegri.
Sá Pétur Blöndal í bítið í gærmorgun. Hann segir lítið mál að lifa af 100 þús á mánuði. Já já jarí jarí. Pétur virðist aðhyllast félagslegan darwinisma, survival of the fittest. Þeir sem ekki aðlagast eða komast áfram í lífinu mega deyja út. Það væri best fyrir íslenska stofninn. En í alvöru talað þá ætti að skora á Pétur að lifa orð sín í nokkra mánuði. Það væri fróðlegt að sjá hvernig honum farnaðist.

4 Comments:

Post a Comment

<< Home