skottuskrif

Monday, April 25, 2005

Kisukveðja

Er búin að gráta úr mér augun! Ekki vegna þess að ég er að lesa hagsögu Íslands(sem vissulega gefur oft tilefni til gráts) heldur vegna þess að kötturinn minn er að deyja. Hún Birta er búin að vera tryggur félagi í 17 ár. Þetta er talsvert langur tími og jafngildir um 100 árum í kattaldri. Í gegnum árin hef ég bölvað Birtu fyrir sóðaskap, kúkur á gólfi, piss í sturtunni og lotningaverðar fórnir í formi dauðra fugla og músa. Stundum gekk ég svo langt að biðja fólk um að bakka yfir hana. Á tímabili langaði mig líka rosalega mikið í hund en slíkt kom ekki til greina. Ástæðan var sú að Birta var bæði ráðrík og grimm. Hún hefði hakkað hundinn í sig. Eftir að við fluttum í Brekkugerðið hurfu allir kettir í götunni, það er jú bara pláss fyrir eina drottningu og þeir hæfustu lifa af. Hundaárátta mín varð einu sinni tilefni að vísu, hún var svona;
Kisa herfa
láttu þig hverfa
sýndu þá lund
svo við fáum hund.
Ég tek allt illt sem ég hef sagt um Birtu til baka. Í dag myndi ég ekki vilja skipta á henni og hundrað hundum. Hún var ein af fjölskyldunni og það sáu allir sem hingað komu, hún var einstök. Og núna bara græt ég. Málið er nefnilega það að hún hefur alltaf fundið á sér þegar mér líður illa. Hún skynjaði alltaf þegar voði var í vændum, horfði upp á mig í veikindum og þekkti allt ferlið. Svo kom hún og kúrði sig hjá mér. Samt held ég að það verði erfiðara fyrir Hermann að kveðja Birtu. Hann er að verða tvítugur og kötturinn hefur fylgt honum allt hans líf.
Það verður erfitt að fylla skarð Birtu ef það verður þá nokkurn tímann reynt. En við eigum svo sannarlegar góðar minningar um hana.
Jæja best að hætt þessu væli og halda áfram að lesa.

0 Comments:

Post a Comment

<< Home